28.7.2009 | 21:28
Aldur............
Mikið eru margir búnir að segja mér hvað aldur sé afstæður. Ég veit nú bara ekkert hvað afstæðni er, nema mér finnst einhvernveginn eins og það sé alltaf verið að vitna í Einstein. Fyrir mér er aldur ekkert afstæður, hann er eins raunsær og hugsast getur. Annað er afneitun. Hitt er svo annað mál hvort við eigum ekki bara að taka vel á móti aldri. Ég steig stórt skref í sumar, varð bara allt í einu 70 ára, bara rétt si svona. Auðvitað var þetta í aðsigi, en alls ekki sjálfsagt, það mátti svosem búast við þessu, þar sem ég var 69, og eiginlega búin að vera það í 12 mánuði.
Ég kveið ein býsn fyrir þessu. Mér fannst ég vera detta ofan í skurð, og yrði að ná hinum bakkanum. Ég þótti svosem alltaf hafa líflega fantasí, þegar ég var barn, og ég hef sagt þetta stöku manneskju, sem hafa svarað mér með afskaplega umburðarmiklu Jái. Ég hafði svosem tekið eftir breytingu í framkomu ókunnugs fólks gagnvart mér, og skrifaði það á svokallaðar ofsóknarranghugmyndir, þar sem allir sem ég þekkti alls ekki neitt, kölluðu mig vinur. Það byrjaði fyrir 10 árum að einhver kona í síma á röntgenstofu, sagði vina í lok upplýsinga sem hún var að gefa mér. Það var fyrsta áfallið. Það var í síma, og ég bara spurði blessaða konuna, hver hefði leyft henni að kalla mig vinu. Ég gafst upp á að vera með þannig dónaskap, ég hafði ekkert uppúr því. En ég fór að temja mér að spekulera í hvernig afgreiðslu ég fengi hér og þar í þjóðfélaginu, og hvernig hún hefði breyt og þróast í gegnum árin. Í dag held ég að þetta séu ekki ranghugmyndir, ég tala um þetta við fjölskylduna mína, auðvitað eru þau öll ung, hvernig á annað að vera. Ég er svo lánsöm að geta ráðfært mig við öll börn og tengdabörn og fæ ýmisleg sjónamið, og öll ráða þau mér heilt, öll andmæla mér oft, en oftast eru þau sammála um að vera sammála mér af einstakri tillitsemi við mig vegna aldurs, blessuð börnin.
Ég sem var búin að kvíða ein reiðarinnar býsn fyrir þessum ósköpum, umbreytingin og skrefið yrði þvílíkt að ég mundi hreinlega ekki "meika það", eins og sagt er. En litlu fjölskyldunni minni tókst svo vel að dreifa mínum huga, og slógu þau upp veislu, og aldrei hef ég upplifað yndislegri dag. Ég hef upplifað ótrúlega marga stórkostlega daga, en einhvernveginn var þessi dagur svo dýrmætur.
Svona er þetta stundum, ágætt.
Athugasemdir
Æ þú ert svo mikil perla...
Til hamingju með aldurinn ;o)
Mér finnst við stundum vera jafngamlar...éggetsvosvariðþað. Finnst allavega ekki muna heilum 40 árum á okkur. Ég var í 30 ára krísu í vor hahaha...
Bína (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 01:01
Gaman að þessum pælingum. Aldur ER afstæður í þeim skilningi, að mér finnst þú ekki degi eldri en ég, en þó eru árin allnokkur á milli. Svo er hann afstæður í þeim skilningi að þér finnst þú án efa miklu yngri en obbanum af jafnöldrum þínum. Aldur er svo oft hugarfar.
Meira um afmælið og þessa skemmtilegu familíu!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.7.2009 kl. 07:41
PS: Nota Bene: Þrátt fyrir hið fyrst talda, finnst mér þú mun vitrari en ég ... en það hefur ekki endilega með aldur að gera .... comprende?
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.7.2009 kl. 07:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.