Færsluflokkur: Lífstíll

SKREKKUR MÁNUDAG..

   Þetta er nú meira fjörið, við sem heima sátum eins og það hét, horfðum samviskusamlega á SKREKKINN, öll vorum við auðvitað með þetta algerlega á hreinu, eins og við erum ég, og öll mín fjölskylda, það vantar ekki, að ég segi nú ekki meira, en einhvernveginn gafst ég upp á að baka sjálf pizzu, svo ég hringdi auðvitað til að drepa ekki niður stemninguna, en eins og ég vissi, þá voru ekki allir jafnhrifnir af pizzu, og ég var búin að sjóða eitthvað af þessu slátri, sem ég hafði unnið, strax eftir gjaldþrotið.  Mér hafði reiknast svo til að mikill sparnaður væri í að vinna þetta, og ég hafði eiginlega talsvert gaman af því, þar sem ég hef verið í gífurlega langri sláturpásu, enda verið þvílíkt góðæri, og svona húsmóðir, sem vill nú eitthvað fylgjast með, verður að halda áfram að sanna sig, og alls ekki slá af, nei, nei,  enda voru dagblöðin, mest viðtöl við hina og þessa matargúrúa, ýmislegt var bannað sem þótti gott, bara fyrir 5 árum, ég var alveg á seinasta snúning, svo ég reyndi dæmalaust gott ráð, og það er að fara í afneitun, eins og refurinn með súru vínberin...

   Ýmsar matarverslanir studdu þessar uppskriftaauglýsingar, þessar líka flottu myndir, eitthvað sem tókst alls ekki hjá mér, útlitslega séð.   

   En fyrrnefnt SKREKKS kvöld, var semsagt Ítölsk baka, í forrétt, síðan blóðmör og lifrarpilsa, fyrir þá sem vildu, sem aðalréttur.   Ég hef að vísu ekki smakkað þessa línu, svona í heilu lagi, en þetta var alveg OK þar sem hlé var á milli rétta

   Sú yngsta, sem ekki er mikið fyrir blóðmör, lauk bara við þessar hveitistangir, sem þeir eru að selja, sem eru í raun ekkert annað en afgangshveitivafningar, og ætti í raun að gefa, en ég er nú bara þannig, hef eiginlega aldrei grætt, nema að einskærri tilviljun og hugsanavillu.

   Við vorum strax með það á tæru að Austurbæjarskóli mundi vinna, ég veit ekki hvort það var blóðmörinn, eða hveitistangirnar sem ollu innsæinu, enda hef ég ekki beint rannsakað það, eins og það heitir.

   Enda vann Austurbæjarskóli.   Brast þá ekki móðir listamannsins í óstöðvandi grát, og fylgdu miklar snýtur, formóðirin (í þessu tilfelli, ég), treysti sér ekki í samstöðugrátkast, en endurtók orðið "jæja" nokkrum sinnum, svona á sinn hátt, í ýmsum tóntegundum, minnug þess hversu mikið henni hefði verið hrósað af Ítölum, hér um árið, á áttunda áratugnum, með ýmsum höfuðhreyfingum, og blæbrigðum á orðinu "SI", um það ,hversu frábæra ítölsku, þessi manneskja talaði, þegar hún var á Ítalíu í den.  Þá var semi-góðæri.

   Þessi  formóðir frétti síðan af dóttursyni sínum, berstrípuðum, á rangli í kringum Hallgrímskirkjuna, og ekki bara frétti, heldur sá það í blaði, Fréttablaðinu, sú mynd er í svarthvítu.

   En svona er þetta, svo lengi lærir sem lifir.......

  


AUSTURBÆJARSKÓLI VANN..................................

Picture 040Picture 037Picture 038Frá vorhátíð Austurbæjarskóla. Gulla í forgrunni.

MÍNIR MENN..................

   EKKI ORÐ UM ÞAÐ MEIR..............................
mbl.is „Hlýleg“ stemmning í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GÖNGU OG MÓTMÆLAMINNINGAR.

   Ég man eftir sögum af Gúttóslagnum.

   Man eftir mótmælunum á Austurvelli, þegar Ísland gekk í Nato.  Menn komu hlaupandi af Austurvelli, óttaslegnir, sögðu frá að táragasi hefði verið beitt á fjöldann þar.  Síðar sá ég myndir frá atburðinum.  Eithvað mikið hafði gerst, barnung fann ég að heimurinn var stærri en bara róluvöllurinn fyrir framan hús.   Þá var sól.

   Man eftir 1.mai, sem var stórhátiðisdagur föður míns, þá. Þegar hann var vinstrisinnaður, og ég fór prúðbúin með honum í kröfugöngu, í heimasaumuðum bláum jakka með gylltum tölum. Faðir minn vildi breyta þjóðfélaginu.  Man að mamma setti í mig hvítar slaufur og ég var með heimasaumaðan fána, sem gerður var úr hárborðum, mér finnst endilega að þetta hafi verið ákaflega flottur fáni.

   Man, og skoða myndir af okkur Ragnheiði með stelurnar okkar allar, á leið í kröfugöngur, allar prúðbúnar, og jafnvel slaufur í hári.

   Minnist ævinlega kröfugöngunnar, þegar ég gekk undir fánum, og kröfum rauðsokka. Þá var faðir minn orðinn mjög hægrisinnaður, og var ekki á sama máli og ég.

   Man söguna um blómabyltinguna í Portugal.

   Óska okkur öllum til hamingju með gönguna í dag.


MENN ÁRSINS...........................

EINAR MÁR GUÐMUNDSSON og,

HÖRÐUR TORFASON.


VINARÞEL.........

   Það er þetta með vinarþelið, sem svo oft er aðeins metið þegar eitthvað er að.  Ég hef oft velt þessu fyrir mér í gegnum tíðina, og akkurat nú, þegar verið er að tala um vinarþel annara þjóða í okkar garð.

   Sjálf hef ég aldrei fundið annað en vinarþel, til dæmis frá Færeysku þjóðinni.  Ég hef fundið það í gegnum starf mitt, þegar ég vann úti á landi, á sjúkrahúsi þar, ennfremur í Rvík, þegar fyrir kom að færeyingar voru þar sjúklingar. Þeir voru með eindæmum hlýir í framkomu.  Það vantaði í þá hroka, að mín mati algerlega.

   Flestir á mínum aldri muna setningar sem komu frá okkur í garð Færeyinga, því verður ekki neitað. Sem betur fer heyri ég það sjaldnar frá yngri kynslóðinni, en mín kynslóð, gat sko aldeilis sett sig á háan hest, gagnvart öðrum þjóðum, til dæmis Færeyingum, og að ég tali nú ekki um, gagnvart Dönum.   Það var ekki það allra besta að eiga til danskra að rekja, þegar ég var í barnaskóla. Minn kennari var andstæðingur Dana, og ég fékk einu sinni að heyra það hjá frökeninni, þá barnung, það var skrýtið, þar sem ég var það ung að ég hafði ekki vit á svona svakalegri þjóðernishyggju, og allt að því rasisma, þó þetta væri sami rasinn í raun.

   En okkur hefur þótt gott að heimsækja Dani, og ófáir Íslendingar hafa verið þar í frekara námi, það vitum við öll, þrátt fyrir ólæti okkar á þeirri grund.

   Í gegnum árin finnst mér einnig við hafa gert lítið úr Norðmönnum, enn er verið að tala um að þeir séu sveitó, Ósló sé bara sveit, og það vanti húmor í þá.

   Ég upplifi þetta einhvernveginn öðru vísi, ég hef oft fengið ærlegt hláturskast í Noregi, þeir hafa gífurlegan húmor gagnvart göllum sínum.

   Danir líka, sem betur fer, en þeir eru finnst mér eiginlega of afslappaðir, og tala mikið um að "ha det hyggeligt", og kveikja kertaljós.   Eiga gífurlega góðar búllur, sem minn aldur passar engan veginn inn í.  En landsbyggðin þar er yndisleg, hún er sko sveitó.

   Og er ekki bara gott að vera sveitó???? Er það ekki það sem við erum??? Við erum rétt nýlega búin að stofna borg.

    OG ER ÞAÐ EKKI ÞAÐ SEM VIÐ ÞURFUM AÐ VERÐA Í DAG, AÐ VERÐA SVOLÍTIÐ SVEITÓ, STUNDA HIN GÓÐU GÖMLU GILDI, OG NEYTA OKKAR GAMLA MATAR OG MATARHEFÐA, OG VENJA???????

   Ég man ekki eftir því að við sýndum pólverjum neitt sérstaklega mikið vinarþel, t.d., og svo mætti lengi telja.


GLEÐIDAGUR HLJÓMSVEITARMANNA.

   Það sem ég var ánægð með að lesa um þetta framlag Bubba og fleiri tónlistarmanna.   Í gærkvöldi leyfði ég mér að spekulera talsvert í hvort ekki væri hægt að koma af stað friðargöngu eins og skot, til dæmis á laugardag.   Það er alveg hægt að færa hana fram.

   Það er sýn sem væri fréttmæt til heimsins, að þeir sem vilja og geta, gangi niður Laugaveginn með friðarljósin, niður að tjörn, og sýndu með því þann styrk sem við höfum, með þögninni einni saman.

   Til dæmis á Laugardaginn.

   Það gæti verið hin ágætasta kröfuganga.


REIÐI...............................UPPREISN BORGARA............KUNNÁTTA?

   Ég hef alltaf verið ótrulega hrædd við fjöldamótmæli, ég hafði mig meira að segja ekki í Keflavíkurgönguna, meðan hún var móðins.   Ég var líka svo smáborgaraleg, að mér fannst eiginlega alveg ómögulegt ef ég skyldi lenda á mynd, gangandi í göngu.

   Enda var ég aldrei neitt reið yfir að hafa þennan her, en svo en svo skemmtilega vildi til að mynd náðist af mér, í eina tíð, þar sem ég vildi endilega gera þetta fyrir góða vinkonu mína, og smellti mér í gönguna síðasta spölinn.   Í dag finnst mér þetta gífurlega skemmtileg mynd.  En það var enginn hasar í þessum göngum, þetta var allt rólegheitafólk, sem síðar um daginn dreyfðist á barina, í miklum rólegheitum.

   Í dag er ég skíthrædd, og ég vona að ekki komi einn alsherjarskrílsháttur útúr fyrirhugaðri mótmælagöngu, og það veit sá sem allt veit að ekki fer ég.   En ég fylgist með, og ef eitthvað fer illa, verð ég örugglega sorgbitin.

   Ég vona að þeir sleppi eggjunum.

   Ég vona að þeir sleppi tómötunum.

   Ég vona að þeir brenni ekki fánann.

   Ég vona að þeir sleppi skítkastinu.

   Við kunnum nefnilega ekki að mótmæla, það er allt annað en í Frakklandi, þeir kunna þetta fag, og eiga mjög góða fagmenn í þessu.   Við áttum Birnu, sem setti svip á göngurnar, þegar við vorum að reyna að mótmæla.

   Við erum nefnilega friðsamir einstaklingar, við erum ekkert sérstaklega opin, við getum þagað þunnu hljóði, og erum með mjög mikla þolinmæði í okkur. Biðlundin með eindæmum, eiginlega erum við frekar stillt, "á heimsmælikvarða", en kannske ekki á Norðurlandamælikvarða.

   Þessvegna er ég hrædd um að við klúðrum þessu.

   Ég var þó fegin að heyra í Herði Torfasyni í fréttunum í dag, hann hefur svo oft verið fyrstur til að segja ýmsa hluti.  Hann er aftur á móti afar gæfur maður, og ég vona að hann hafi góða með sér.

   Ég vona að foreldrar fari ekki með börnin sín, það er skaðlegt fyrir þau.


REIÐI....................................VON

Það eru enn svo margir reiðir, og það er ágætt, reiðin er gífurlegt afl, og leiðir oft til góðs.  Og í mörgum tilfellum nauðsynleg.

Reiðin var mörgum og er nauðsynleg núna, og þar sem hún er afl, hvetur hún fólk til einhverra verka og oft góðra. Ég vona að svo verði nú. Vona að við förum ekki strax úr reiðikastinu, yfir í einhverja afneitun, og gleymsku á þessum hlutum.   Látum helst ekki kjafta okkur til.   Það er ekkert auðvelt að vera reiður, langt í frá, eiginlega heilmikið állag fyrir öll kerfi líkamans, og hefur oft komið einstaklingum í ógöngur.    En nú hefur hún verið nauðsynleg mörgum, meðan beðið  er eftir lausnum, sem ég vil trúa að séu í sjónmáli.

Reiðin er afleit ef hún sest fyrir, ein og út af fyrir sig, við verðum að sjá fleiri fleti en þann flöt sem veldur þessari miklu reiði.  Við þolum ekki ýmsar athugasemdir, sem ´róta við þessari reiði, og það er hundleiðinlegt að bjóða reiðu fólki uppá einhverskonar setningar sem eru hreint og beint niðurlægjandi í nærveru reiðrar sálar, eins og til dæmis "svona, svona, þetta reddast" það er leiðinlegt svar.  En við verðum að bíða akkurat núna.

Setningar eins og "núna getum við farið að hugsa hvert um annað!!!", núna skulum við vera saman og vera afspyrnu góð við hvert annað og þar fram eftir götunum.  Þessar setningar geta svo sannarlega farið illa í okkur, og ein vinkona mín, varð bara hundvond, og sagðist bara ekki vita annað en að hún hafi tildæmis alltaf verið góð við börnin sín.   "Ég þarf enga kreppu til þess að vera góð við börnin mín og vini mína" og "mér finnst ég ekkert þurfa að vera að breyta um hugsunarhátt, hvernig á´ég að vera t.d.?" og svo hvað????? Svo er kreppan kannske búin áður en mér hefur tekist að breyta mínu hegðunarmynstri sem hefur bara dugað ágætlega hingað til!!!!!!!!

Önnur vinkona mín var að fara á eftirlaun, og hafði tekið smávegis lán, til að gera upp lausaskuldir, og var með einhvern móral í morgunn, hún hélt yfir mér smáfyrirlestur um greiðslubyrði, og spurði mig "Og hvað finnst þér um þetta?"  Svar mitt var ósköp einfalt "Veistu að ég fæ bara brjóstverk!"   "Hva, færðu brjóstverk af því að heyra þetta?"    "Færðu brjóstverk vegna þess hvað mér hefur gengið vel með þetta!!"    

"Nei,nei, ekki yfir því, heldur þú ert með þetta í miklu betra lagi en ég og ég fæ bara svona smákast yfir mínu, og hef á tilfinningunni, að ég verði til dæmis að hætta við að skúra hjá mér gólfið og bóna, og þurfi frekar að lufsast í bókhaldið!!!!!!!""

"Hún gat komið mér á þá skoðun að þetta væri alveg í sæmilegu lagi hjá mér, hún er snillingur í því"

Og það er svo ágætt að við erum ekki öll eins, þeir sem eru ekki reiðir, gætu gefið sér góðan tíma til að hlusta á reiða fólkið, sem hefur fullan rétt á því.

Það er uppbyggjandi að hlusta á heiðursfólk, vera í svolitlu reiðikasti, það vekur þá af svefni og afneitun, ef hún er til staðar.

Við þurfum að taka hvert annað á orðinu, eins og við erum vonandi vön.

Lífið er heilmikið flókið núna, svona flókinn kafli, og því var auðvitað aldrei lofað að það ætti að vera einfalt.

En það góða við þetta allt saman, er að þetta er sameiginlegt vandamál, við erum nokkurnveginn á sama báti, og við erum HEIÐURSFÓLK.


RAUNSÆI..............VONLEYSI......

   Ég er svo heppin að hitta margt fólk, og ég mjög heppin með það fólk.   En ég hef eins og allir heyrt margar túlkanir á ástandi okkar í dag, margir enn mjög reiðir, og sárir. En enn, eru allavega viðbrögð í gangi. Sjálf sveiflast ég soldið, en hef ekki áhyggjur af því.   En maðurinn sem ég mætti í gær, var ekkert að sveiflast,  hann hafði sem flestir karlmenn horft á fréttaskýringarþátt og ég fékk eiginlega áhyggjur af málunum, þar sem ég veit að hann er ekki eini maðurinn sem er svona raunsær.

   Þessar hamfarir höfðu sett þennan bjartsýna mann í eihvern gír, sem ég hafði aldrei séð hann í.   Gír sem fjöldi landsmanna er í.  "Hvernig heldurðu manneskja að þetta verði til dæmis í febrúar?" ha", ja ég var nú ekki farin að hugsa svo langt, kannske bara ekki treyst mér til þess, enda óttalegur héri í svona fjöldakrisumálum, hef aldrei lent í þeim. En þessi maður hafði heldur aldrei lent í fjöldakrisumálum.

   "Hvernig heldurðu að þetta verði í febrúar þegar allir eru búnir að vinna uppsagnarfrestinn sinn?"

   Ég hafði ekki hugsað svona langt.

   "Hvernig heldurðu að það sé að eiga börn, sem maður er búin að skuldsetja?"

   "Ég hafði heldur ekki hugsað svona langt?"

   "Og veistu það Sólveig að það er búið að hneppa fjöldan allan af Íslendingum í fangelsi!"

   "Ég var heldur ekki farin að hugsa svona langt.

   "Já fangelsi, ég er til dæmis í skuldafangelsi, ég kemst ekki útur landinu, húsaleiga hjá mér greiðir ekki íbúðina mína, þó ég vildi væri það engan veginn lausn, bara að fara úr öskunni í eldinn, ég kemst ekki vegna pokans sem ég ber."

   "Ég var eitthvað að draga úr og í, segja að það væri verið að finna lausnir, og þar fram eftir götunum, og ég vil trúa því að það sé verið að því, og þá á heiðarlegan hátt, sagði honum að ég vildi bara ekki trúa því að einhverjar lausnir væru í sjónmáli í febrúar.

   Á meðan ég var að umla þetta, fann ég að ég var bara langt frá því að hafa nokkur rök fyrir því sem ég var að segja, og fékk þó nokkrar áhyggjur vegna þessarar bjartsýnu kynslóðar, sem hafði verið svikin.

   En enn eru kurl að koma til grafar, sem betur fer, og vonandi koma þau fleiri, það finnst mér vera það sem bjargar okkur, að rífa niður í smáeindir, og setja uppá borð. Þá fyrst getum við farið að raða upp, úr því sem komið er getum við beðið í smátíma, það er svo oft það erfiðasta að leita að og finna grunnorsökina.  Vonandi höldum við þreki til að byggja upp, en eitthvert vantraust hefur sáð sér í hjörtu margra manna sem eiga það ekki skilið.

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband