Færsluflokkur: Lífstíll
1.8.2007 | 00:56
Fiskur.
'Eg man að fisksalar pökkuðu fiskinum í gömul dagblöð, en höfðu þó smjörpappír innst ef um flök var að ræða. Þórarinn Eldjárn, bls.82, úr bókinni "Ég man" frá 1994.
Ekki datt mér í hug að Þórarinn myndi þetta, hann er talsvert yngri en ég, en ég man þetta.
Fisksalinn í hverfinu hjá mér var óvenjulegur maður, og fiskbúðin einnig, enda óralangt síðan í miðbæ Reykjavíkur, þar sem nú telst gamli austurbærinn. Þar var gengið niður tvær tröppur, fiskbúðin var semsagt í kjallara, þar var kalt. Þegar komið var að morgni var ógrynni ýsu í tröppunum þegar vel gafst, og ekki alveg búið að opna. Allt var það fiskur með haus. Þarna lá hann í hrúgum, mest ýsa. Einstaka steinbítur sem var afskaplega ljótur fannst mér. Þarna var fisksalinn okkar og einhvernveginn komst hann í gegnum fiskihrúguna og við líka.
Sagt var að ef fólkið spyrði hann, er þetta ný ýsa??, og hann hrækti beint í hana væri hún ný, annars ekki, þá var keyptur saltfiskur á mínu heimili, hann hafði jú gefið þessi skilaboð. Annars var hann alltaf að sjúga uppí nefið, og þurrka sér á erminni, og snýta sér útí loftið. Ég horfði mikið á þetta í dag sé ég að honum hefur ábyggilega verið mjög kalt, það var jú kalt í fiskbúðinni, hann á stórum stígvélum, með óskaplega stóra húfu. En alltaf keyptum við þarna. Að vísu var önnur fiskbúð handan við hornið, þ.e. á Barónsstígnum, þar var mun snyrtilegra, t.d. ekki gengið niður tröppur, og ekki fiskur í tröppunum. Hann þótti fínni fisksali, en ennfremur var hann eitthvað dýrari. Það voru leiðinlegir dagar þegar ekki gaf á sjó, þá var ekki ýsa í matinn, þá var þessi leiðinlega frosna heilýsa eða skatan, sem í dag þykir mjög fín á aðventunni. Í þá daga var skata langt frá því að vera fínn matur....Breyttir tímar....
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2007 | 21:40
Veður
Ég er alltaf jafn hissa hvað ég verð lítið vör við veðurbreytingar, það er helst að ég finni það þegar ég þarf að finna einhverja aðra yfirhöfn en í gær. Geri mér enga grein fyri afhverju þetta er svona með mig. Er ennfremur mjög gleymin á veður, allavega þarf ég að setjast niður og hugsa mjög mikið.
Ég hugsaði mjög lengi um hvernig veðrið var í fyrra, en var frekar heppin, ég hafði talið dagana sem uppstytta var, og þeir voru 3. Ekki sem verst.
Það góða við að búa hér er það að við búum við þann efnahag Íslendingar að við kaupum bara sólina með því að fara utan, og erum alltaf jafndugleg við það, sem betur fer. Mjög margir eru fegnir að koma heim, og er jafnvel farið að leiðast í 3ja vikna sólskini. Ennfremur er hópur sem er mjög ánægt ef kemur góður rigningardagur í útlöndum, og verða þá bara yfir sig kátir, sjóða frosna ýsu, og bæta á hana mörfloti sem þeir laumuðu í töskuna. Svona er þetta misjafnt. Ég aftur á móti er eins af þeim, sem vil helst alltaf vera lengur, vil gjarnan fara heim og kíkja á barnabörnin mín, en fara aftur, þetta truflar mig samt ekki, þar sem ég veit að við höfum öll val. Þennan sterka vilja sem við komum með okkur í þennan heim. Viljinn er sterkt afl.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)