Í KIDDABÚÐ......

   Viðskiptasamningur okkar Kjarvals var ekki stór en öruggur. Kjarval var öruggur kaupandi minn þegar að því kvíðaverkefni kom, að selja merki, man ekkert hverra, en til að komast í gegnum erfiðasta hjallann, þe byrjunina, þá var það Kiddabúð og Kjarval, og svo auðvitað Kiddi sjálfur uppá efstu hæð, sem hann byggði húsið sitt með miklum glæsibrag.

   Mig langaði að vera svoleiðis, að eiga 4ra hæða hús, ekki endilega alveg eins, en það sem mig dreymdi um að eiga 4ra hæða hús, ekki var ég nema 7 ára, svo materíalisminn  kom í ljós,gæti þessvegna verið meðfæddur. Sumir vilja bara eiga hús, og aðra langar ekkert til þess.

   En mikið var leiðinlegt að selja merki, það var svooooo leiðinlegt að ég man það enn í dag, en ljósi punkturinn í því ferli var auðvitað Kjarval, sem bjó á annarri hæð í húsi Kiddabúðar, og hafði vinnustofu sína þar einnig, eins og flestir vita. Ég treysti á Kjarval. Hann var sko í lagi, tók mér ávallt með sama ávarpinu "Jæja, telpa mín, ertu nú að selja merki, komdu nú inn, meðan ég öngla saman, og skoðaðu nú þessar myndir"  Mér fannst hann lengi að öngla saman, en það var svosem allt í lagi, ég gat skoðað myndirnar hans nýmálaðar, sem hann hafði stillt upp við vegg á gólfinu.   Síðan kom hann og spurði mig hvernig mér fyndust þessar myndir, ég man ekkert hvað ég sagði, en alltaf keypti Kjarval af mér allt sem ég reyndi að selja, þó hann væri lengi að öngla saman.

   Og auðvitað mættumst við oft í henni Kiddabúð, þegar hann kom þangað til að kaupa vindilinn sinn, og ég kannske conwoy sígaretturnar hennar mömmu minnar, og Steini kveikti í vindlinum hans Kjarvals, og sagði "Gjörðu svo vel, herra minn", þetta fannst mér smart og fór með bréfpokann til mömmu, kannske hef ég sagt við hana "Gjörðu svo vel frú mín góð", en ég man það ekki.  En ég hef örugglega þakkað honum Kjarval fyrir kaupin, og kannske hef ég hneigt mig eins og Steini.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband