KJÖTBORG..........................KIDDABÚÐ. STEINI Í KIDDABÚÐ.....

   Það eru dýrmætar minningarnar sem ég á frá Kiddabúðarhorninu, á horni Njálsgötu og Barónsstígs.  Þessar búðir eru mjög líkar, nema Kjötborgin er stærri en Kiddabúð var.   Kaupmaðurinn minn hann Þórsteinn, sem var aldrei nefndur annað en Steini, var aðalmaður hverfisins, og þá ekki einungis fyrir Krumma lakkrísinn sem hann gaukaði yfir sitt búðarborð, heldur fyrir alveg einstaka hæfileika sína í umgengni við annað fólk, og þá af öllum stéttum. Sem barn skynjaði ég þegar fyrirfólk eins og forsetar, og biskupar voru í heimsókn í búðinni hans, ég fann það í loftinu, og gætti þess að vera prúð, til að trufla ekki Steina minn. Þetta kenndi mér, finnst mér í dag, því hann hafði þetta lag á að skjalla aldrei fólk, smjaðra ekki, og var aldrei með neina tilgerð.

   Það var allt til í þessari búð, held ég. Allar hillur fullar, held ég. Allt fullt af lakkrís, held ég. Allt fullt af appelsínum, minnir mig, þegar þær fóru að sjást.

   Steini kunni að hneigja sig.

   Steini hneigði sig fyrir forsetanum, og Kjarval, sem kom iðulega, enda bjó hann um tíma á næstu hæð fyrir ofan.

   Og Kjarval fékk sér í pípu.  Það var alltaf svo einkennilega góð lyktin af þessum pípum hans Kjarvals, fyrir utan það hvað hann var skemmtilegur fannst mér.

   Kjarval og Steini vissu hvernig átti að tala saman, voru ekki vandræðum með það blessaðir. Steini vissi þetta upp  á hár. Steini kunni þetta, það var ég viss um.

   Kiddabúð var félagsmiðstöð gamla austurbæjarins, útlánabanki, Steini var svo oft að skrifa í einhverja blokk, og það voru margar konur sem komu.  Alltaf var Steini minn jafnkurteis, og hneigði sig þegar konurnar fóru útur búðinni, og svo sem líka mennirnir þó stundum maður rækist á svokallaða róna, það var alveg sama, Steini sýndi þeim gífurlega virðingu og hneigði sig, og þeir urðu menn með mönnum, eins og ég varð manneskja með manneskjum, þó nef mitt næði rétt upp undir lakkrísbúðarborðið.

   Það var enginn stéttaskipting í Kiddabúð, né aldurs- eða kynskipting í þeirri félagsmiðstöð, sama þjónusta alltaf.

   Því var það þegar ég kom fyrst í Kjötborg, fannst mér ég vera komin í Kiddabúð Njálsgötunnar, og ætla ég að skoða þá kvikmynd sem fyrst.  Ég var svo þakklát forsjóninni fyrir, að hafa kynnt mig fyrir Steina í Kiddabúð, sem hefur gefið mér margar góðar minningar, og vináttu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Svona minningar eru ómetanlegar.

Hvenær kemur sjálfsævisagan "svipmyndir úr 101 frá síðustu öld" eða "Njálsgata-Gunnarsbraut 1" út ....  ?

Ég skal hjálpa þér að finna nafn á söguna. 

Yndisleg færsla, meira, meira. 

 

PS: Hét vagninn ekki annars Njálsgata-Gunnarsbraut og stoppaði rétt hjá ykkur? Og var númer 1?

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 5.1.2009 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband