3.6.2008 | 21:41
Síðasti hljómurinn sleginn.....
Hvað ég hefði viljað vera í Liverpool á laugardaginn, að hlusta á Hljóma úr Keflavík í Cavern Club. Ekki hefði verið mjög upplífgandi að hafa mig þar, ég hefði örugglega vælt í marga vasaklúta, hefði upplifað þetta sem aðskilnaðaráfall með tilheyrandi tilvistarkreppu og ég veit ekki hvað af tilfinningarskalanum. Ekki þó bara vegna Hljómanna, þó ég sé algert Hljómafan, heldur og einnig vegna Bítlanna sálugu, sem má segja að séu mínir samtímamenn, eða þannig lagað, þó svo að ég hafi verið meiri Rolling Stones pæan. Þetta er alltsaman svo skemmtilegt. En það veit sá sem allt veit að ég eiginlega sé eftir að hafa ekki druslast á einhverja tónleikana með til dæmis Rolling Stones, ég þori ekki núna, það yrði svo mikið vesen að falla frá undir þannig kringumstæðum, og maður verður auðvitað að sýna svolitla ábyrgð. Það er svo margt fólk á svona tónleikum. En það hefði alveg verið í lagi að fara í Cavern Club á laugardaginn þeirra hluta vegna, en þá hefði ég bara orðið fjölskyldu minni til skammar sem þar var.
En mér eru minnisstæðir strákarnir í Hljómum frá fyrstu árum, ég þurfti að umgangast strakana vinnu minnar vegna, og þeir eru mér alltaf minnisstæðir sem pollar, eitthvað hafa þeir skorið sig strax úr, einhverra hluta vegna, allavega man ég eftir Gunnari, Rúnari og Erling. Svona er þetta bara.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.