29.5.2008 | 22:35
SUMAR, sumarskap, morgunnsól..
Ég er haldin endurvinnsluáhuga, þó ég standi mig afar ílla í endurnýtingu á pappír, fer aldrei í pappírsgámana, aldrei með flöskur, aðrir gera það í familíunni. Mundi sjálfsagt gera það ef ekki væru aðrir til þess. En.. það sem mér finnst eitthvað svo pirrandi, ef svo má að orði komast, er að setja garðúrgang í plastpoka, sem eru eins og heysátur í röð. Gera stóra ferð í sorpu, sem er óttalegt fyrirtæki. Hvolfa þar úr plastpokum, svo yfir mann og aðra þyrlast upp rykið. Bílarnir verða óhemju óhreinir, og mér finnst þetta eigi ekki að vera svona, allavega ekki þegar fólk býr við svona kringumstæður sem ég geri. Þessvegna fór ég að búa til hauga hér og þar á lóðinni á lítið áberandi stöðum, nema tveir þeirra eru beint fyrir framan eldhúsgluggann.
Ekki nokkur lifandi sála hefur dáðst að þessum haugum, ekki manneskja.. Var um tíma alltaf skítnervös ef ég varð vör við að fólki var litið út um eldhúsgluggann, svo ég reyndi að hafa þetta "blandað bakdyramegin", svona til að, ja svona bara til að hafa þetta blandað.Aldrei fékk ég neinar jákvæðar athugasemdir frá fjölskyldunni, varðandi þessar hrúgur, og sértillagðar körfur.
Í morgun var ég svo óheppin að vakna fyrir allar aldir, í þessu fína veðri, algert logn, og varð ég hreinlega að bíða, og drekka amk 3 kaffibolla áður en sómasamlegur tími kom til garðagrams. Hunangsflugan var vöknuð, og mig langaði að moka, bara moka, það er svona tilfinning, eða árátta sem enginn skilur, nema sá sem er haldinn þessari áráttu, eða þrá eftir að vera með skóflu. Og ég fór eitthvað að skoða hauginn, tína ofan af honum greinar, og viti menn, í fyrsta skóflutakinu er ég með þessa fínu mold í höndunum, sko, bókstaflega í höndunum, dökkbrúna og þessi sérstaka lykt. Þetta var greinilega minn dagur, ný handavinna, ný jörð, sem ég hafði vaktað og ætlaði eiginlega að fara að planta í þessar ómyndir mínar.
Ég fann þarna í leiðinni netskúffu úr frystiskápnum gamla, og mokaði í´og síaði, hvað þetta var skemmtilegt, ekkert nema fínerý kom úr grindinni, og það er alltannað að sjá "baghaven" allavega í bili. Aldrei hefi ég séð svona flotta ánamaðka, sem komu upp með moldinni. og ég vona bara að einhver fulglinn hafi fundið þá, ef hann hefur þá mátt vera að því að fara frá hreiðrinu, þar sem yfirsetan er í fullum gangi núna...............
Athugasemdir
Æðislegur lífskúnstner með skóflu í félagsskap hunangsflugu mokar í heimtilbúinni moldinni sinni. Ég sé þetta í anda og heyri fuglana syngja, morguninn hellast yfir og flugurnar suða. Inni bíður nýlagað. Yndislegt!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.5.2008 kl. 22:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.