13.5.2008 | 02:27
HEIMKOMA ÍSLENDINGS
Ég hefi alltaf haldið því fram að það sé einskær tilviljun að ég sé Íslendingur. Það er svo lítið af mér af honum. En ég er ekki þannig að ég sé spennt að koma heim nema til fjölskyldunnar minnar, sem ég ætti að hvíla soldið á mér, þannig lagað. Stundum skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur og þar fram eftir götunum. Ég hefi ekki fjallatignunarhólfið í hjarta mínu eða heila. Það vantar svo margt af þessu í mig. Mér þykir þó frekar vænt um Reykjanesfjallgarðinn af því hefur eitthvað svo fallegt form héðan úr glugganum mínum, mér finnst gaman að syngja Ísland ögrum skorið, í góðum hópi.
Ég er Íslendingur bara af því að mér finnst það vera skylda mín, af því ég fæddist hérna, en í mig vantar alveg þjóðernishyggjuna, lengi tengdi ég tungumálið við að vera Íslendingur, en nú er það að breytast.
En samt er það nú svo, að þegar heim er komið eftir smáferðalag, upplifi ég nær alltaf hversu mikil forréttindi það eru að hafa fengið að fæðast hér. Verð ég þá blendin í trúnni, og held að það hljóti bara vera til bráðabirgða, ég hljóti að hafa verið einhverntíma á verri stað, eða jafnvel í undirbúningsdeild fyrir annað, en auðvitað er þetta bull.
Forréttindi Íslendinga eru stórkostleg. Það eru ekki stríð, við þurfum ekki að senda börn í her, ekki að sofa með byssur, höfum getað valið um vinnu, bloggum án afláts, rifist um hvað eru tildæmis góð og léleg blogg, og er þá spurning, hver dæmir bloggið.
Ég sjálf er forréttindamanneskja, og ég vona að ég geri mér grein fyrir því það sem eftir er ævi, og þá ekki bara vegna þess að eiga heima hér, það er jú mitt val. Það eru forréttindi að geta fært sig úr stað, og það að færa sig úr stað, fara frá landi sínu smátíma, er eiginlega nauðsynlegt, og helst nokkrum sinnum á ári. Þarf ekki alltaf að vera langt. Að færa sig úr stað er einnig að hreyfast, hreyfast í aðrar áttir og nægir stundum Borgarfjörðurinn. Það er misskilningur að þetta þurfi að vera dýrt, þannig lagað, það hefur alltaf kostað að ferðast þó bara út á land sé, hefur bara alltaf verið síðan ég fór að færa mig úr stað.Hægt er að láta þetta kosta nokkuð ákjósanlegt.
Aðrar sýslur og önnur lönd opna huga manns, ef maður nær hinni góðu hvíld sem hreinsar hugann, fær okkur til að geta sorterað eitthvað þreytugrufl, sem er kannske í einhverjum hrærigraut í huga manns. Og til þess eru ferðalög, gott að sjá annað, aðrar þjóðir, sjá til dæmis nægjusemi annarra þjóða. Og til þess eru frí. Og þessvegna upplifi ég mig forréttindamanneskju. Ennfremur eru lífsgæði hér betri en annars staðar skv rannsóknum, og við hljótum að finna það.
Túlípanarnir mínir eru komnir í klösum, ég hélt ég hefði gleymt að setja þá niður, vorblómin skarta sínu fergursta, ég hef náð að taka til á skrifborðinu mínu, eftir margra mánaða drasl, grasið er grænt, eiginlega svakaleg spretta, þakka það korninu sem ég gaf í fyrra lagi. Mér fannst fallegt að horfa til stóru húsanna í Garðabæ, sjálandshverfið heitir það, þá finnst mér ég vera svo nálægt Manhattan, mér líkar vel að sjá ljósin á kvöldin, því þau minna mig á New York. Falleg form, formuð af fólki.
Athugasemdir
Góðar hugleiðingar og mjög svo eðlilegar.Við íslandingar kvörtum og kvörtum en í raun eru það forréttindi að fæðast á svona litlum stað sem hefur uppá allt að bjóða nema kanski stanslaust gott veður,en hvar er það að finna.Skilaðu kveðja til Gullu Rún og fjölskyldu.
María Anna P Kristjánsdóttir, 13.5.2008 kl. 10:05
Frábærar pælingar. Þú ert heimsborgari og alltof víðsýn til að vera með ofvaxna þjóðerniskennd. Hverfi stórReykjavíkursvæðisins minna þig á New York og þú þjáist ekki af fjallatignunartilfinningaröskun. Mér finnst þetta nú bara algerlega sérdeilis prýðilega stórkostlegt. Velkomin heim á þitt gamla sker!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 13.5.2008 kl. 20:53
Þiðeruð nú alveg draumur báðar tvær, og svo margir aðrir líka.......
Sólveig Hannesdóttir, 14.5.2008 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.