3.3.2008 | 10:31
HIPPATÍMABILIÐ....
Vietnamstríðið olli auðvitað öllum bæði áhyggjum og heilabrotum, hafði áhrif alla leið hingað, stríðsreksturinn kominnn inn á borð hinnar fámennu íslensku þjóðar. Við vorum allt í einu með í slagnum. Sterk tískubylgja yfirtók rosalega. Twiggy fyrirmynd ungra stúlkna, og jafnvel okkar mæðranna, og mæður alveg á kafi í að lita boli, sauma sailor-buxur og poncho voru hekluð í stórum stíl á börn og jafnvel fullorðna, svo ekki var hægt að segja að áhrifin væru ekki innan hins borgaralega heimilis á Íslandi. Mikil uppsveifla var á hárgreiðslustofum, engin kona með konum nema vera með villt permanent, það var góð tíska finnst mér. Við sem vorum eldri en 68 kynslóðin vorum svona í jaðrinum hvað tískuna snerti.
Upp risu sjálfskipaðir spekingar, misvitrir. Stórgóð skáld komu einnig fram, að ég tali nú ekki listmálararnir, súmmararnir, það voru komin önnur gildi. Það var eitthvað í gangi sem hristi upp í manni. Maggi gerði afsteypu úr kopar af brjóstahaldara, frábært verk, og kvennabaráttan fór í gang. Sjálf gleypti ég hana ekki alveg, en einhvernveginn síaðist þetta með eftirmiðdagslestri Helgu heitinnar, "Ég er forvitin rauð". Fyrstu þættir hennar í útvarpinu ýttu aldeilis við okkur heimavinnandi konunum, en þar kom að ekki var annað hægt en að hlusta á þessi erindi.
Því miður, skilaði kvennabaráttan ekki því inn sem hún hefði best gert, almennu konunni. Þær konur sem voru heimavinnandi, höfðu ekki frið samvisku sinnar vegna, þær voru nú allt í einu komnar með samviskubit og sektarkennd yfir að vera "bara heima", og allt í einu voru konur komnar í einhverja leiðinlega vinnu utan heimilis, þó þær væru ekkert sérstaklega æstar í það, og ennfremur kannske mjög óhagstætt peningalega séð. Uppsveifla varð hjá dagmæðrum sem spruttu eins og gorkúlur útum allt. Allt var betra en að vera bara heima. Það varð ótrúleg ferð á konum þessara tíma. Margt opnaðist uppá gátt og konur fóru að vera talsvert meira í félagsmálum en áður, ekki bara í vinnu heldur og í allskonar félagsmálum þess utan.
Samt voru áfram sömu kröfur á konur og áður, þær skipuðu oftast lykilhlutverkið á heimilunum, höfðu áfram sömu stöðu innan heimilis sem aðal forsvarsmenn heimilishalds, sáu áfram um börnin að mestu leiti, sáu um tengslin innan stórfjölskyldunnar, sáu um allan þvott, krafa var gerð á þær um að hugsa um mæður sínar, tengdamæður og jafnvel afa og ömmu, ekki það að stórfjölskyldan hafi búið öll heima, en tengslin sá konan áfram um, ekki nokkur spurning. Að mínu mati var þetta ekki gósentímabil á heimilum þessa tíma. Í kjölfar lækkuðu laun karlmanna, og reiknað var með innkonu tekna konunnar í samningum við hin almenna karlmann á vinnumarkaðnum. Brátt var komið svo að allar konur URÐU að sveifla sér útá vinnumarkaðinn.....................
Athugasemdir
Mjög fínn pistill móðir góð!
Hannes Heimir Friðbjörnsson, 3.3.2008 kl. 10:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.