15.2.2008 | 17:33
HEILKENNIÐ FLUGFÝLA
Er frekar leiðinlegt. Kemur sérstaklega fyrir á leið heim. Sleppur svona nokkurnveginn á útleið, vegna þeirrar tilhlökkunar yfir að fara aðeins úr landi. Einkennin eru áberandi, einstaklingur getur ílla leynt þeim þar sem útlit einstaklings er gríðarlega fýlulegt, það mikið að maður heldur að einstaklingurinn sé í sorg, eða hafi elst alveg ótrúlega hratt síðustu misseri. Sjúklingurinn hefur allt á hornum sér í flugvélinni, hefur óvinveitta líkamstjáningu gagnvart starfsfólki vélar. Finnst almennt starfsfólk koma með hallærislegar athugasemdir, og er viss um sjálfur að allt væri betra, ef hann stjórnaði þessu öllu saman sjálfur. Athugasemdir starfsfólks einsog ef spurt er um gæði krema, "þetta hefur reynst henni ömmu minni vel" fara mjög illa í þessa sjúklinga, sem spyrja oft um hvernig langamma þeirra hafi það, ef sjúklingurinn er ílla haldinn. Sem betur fer tekst þessum sjúklingum að halda aftur af sér, umhverfisins vegna, og vegna þess að hann vill ekki komast á lista flugdólga. Þessir sjúklingar hafa mikið á móti því að þakka starfsliðinu við landganginn eitthvað sérstaklega, þar sem þeir eru bara að vinna sína vinnu að þeirra mati.
Þegar komið er á miðja vegu til Rvíkur, eftir Reykjanesbrautinni, réna einkennin talsvert þar sem sjúklingurinn notar þessa leið til að ergja sig á ýmsu, t.d. bölvuðu myrkrinu, og menningarleysinu í frágangi Reykjanesbrautar, fyrir utan það að skammast sín fyrir að sætta sig við að keyra þessa braut í því ásigkomulagi sem hún er núna.
Lækning er líklegast enginn, nema vera skyldi að stinga höfðinu í sandinn, og snúa sér að almennum málum landans sem eru borgarstjórnarmálin. Það má alltaf halla sér að þeim greinilega. Síðan má með vorinu ergja sig á náunganum sem ekki gerir þetta og hitt, svo það er af nógu að taka. Svo er bara það besta að leggja drög að næstu ferð, þar sem heimferð er ekkert verið að hugsa um í byrjun, enda tekur þetta fljótt af.
Athugasemdir
Hahahaha! Þekki alltsaman, sjúkdómseinkennin og gang sjúkdóms, tilraunir til endur-samlögunar og lækningar. Velkomin heim, Noregsfari kær!!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 16.2.2008 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.