23.12.2007 | 11:16
LÍÐA TEKUR AÐ JÓLANÓTT.
Hann stokkroðnaði, hvað hann var skömmustulegur yfir að vera að æpa þetta útí himingeiminn um sín persónulegu vandamál eins og barneign konu sinnar, um ljósmóðurleysi og umhyggju. Ambátt stóð í dyrum húsráðenda sinna, sem hún tilkynnti ráðleysi þessa unga manns, hún sagði þeim að þau yrðu að leita annað, því miður því hjá þeim væri ekkert pláss, það væri allt yfirfullt af fólki, sem væri á leið í skrásetningu. Húsmóðirin bauð Jósep inn til að sjá þennan fjölda, sem væri yfirgengilegur. Allt var fullt af börnum, tengdabörnum og venslafólki í þessa blessuðu skrásetningu, sem enginn vissi afhverju, né til hvers. Húsmóðir þessi bauð þeim einn af sínum hellum, það væri mikið af þeim í landi þeirra. En Jósep vantaði ljósmóður, það væri aðalmálið, og aðeins smápláss, þau væru með sínar eigin mottur, svo það var einungis smágólfpláss, sem á vantaði. Ambáttin sagðist vera vön nærkona, hefði tekið á móti fjöldanum af börnum, og væri óhrædd við að aðstoða þau ef leyfi húsmóður fengist. Þær báðar voru miður sín yfir þessum grimmu tímum, að ekki væri hægt að skjóta skjólshúsi yfir konu í barnsnauð, og niðurlægjandi að bjóða konu að fæða í helli, eins og björnum og úlföldum, þær voru miður sín. Húsmóðirin horfði í andlit Maríu, og sorgin í andliti Maríu snart hana djúpt, hún vildi gera allt fyrir hana sem hún gæti, en lengra komst hún ekki í góðsemi sinni en að bjóða henni hellinn, sem ekki var í notkun núna, þar væru ekki skepnur í augnablikinu, hann væri þrifalegur, og hún gæti notað þarna lágan stall fyrir barnið. Það væri möguleiki á að gera þetta þægilegt, en ekki meira en það.
Það var tekið að kvölda, skýin dökknuðu og ambáttin Salóme, fylgdi þeim að hellinum. Salóme var með heit kol, það varð að halda eldinum, með leirpott til að sjóða vatnið, hún var með saltið sem skyldi notast á barnið nýfætt til að bægja frá sýklum. María var með föt og lín fyrir barnið og Jósep var með vasahníf til að skera á naflastrenginn, sem yrði notaður þeas ef Salóme samþykkti það, nærkonur notuðu oft tennurnar til þess verks.
Stallur getur verið jafngóður og vagga, sögðu María og Jósep, og sá sem er svefnlaus eftir eyðimerkurferð, er þakklátur fyrir hvað sem er. Asnarnir voru gráðugir í hálminn, voru matarlausir eftir auðnina sem að baki lá. Það var snemma nætur og morgunsólin gægðist fram við fjallstoppana. Þau hvíldust, María undirbjó sig andlega fyrir það sem fyrir lá. Ferðast á ösnum um grýtta jörð var þrekvirki, og eiginlega ógeranlegt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.