Fiskur.

'Eg man að fisksalar pökkuðu fiskinum í gömul dagblöð, en höfðu þó smjörpappír innst ef um flök var að ræða.   Þórarinn Eldjárn, bls.82, úr bókinni "Ég man" frá 1994.

   Ekki datt mér í hug að Þórarinn myndi þetta, hann er talsvert yngri en ég, en ég man þetta.

   Fisksalinn í hverfinu hjá mér var óvenjulegur maður, og fiskbúðin einnig, enda óralangt síðan í miðbæ Reykjavíkur, þar sem nú telst gamli austurbærinn.  Þar var gengið niður tvær tröppur, fiskbúðin var semsagt í kjallara, þar var kalt. Þegar komið var að morgni var ógrynni ýsu í tröppunum þegar vel gafst, og ekki alveg búið að opna. Allt var það fiskur með haus. Þarna lá hann í hrúgum, mest ýsa. Einstaka steinbítur sem var afskaplega ljótur fannst mér. Þarna var fisksalinn okkar og einhvernveginn komst hann í gegnum fiskihrúguna og við líka.

   Sagt var að ef fólkið spyrði hann, er þetta ný ýsa??, og hann hrækti beint í hana væri hún ný, annars ekki, þá var keyptur saltfiskur á mínu heimili, hann hafði jú gefið þessi skilaboð. Annars var hann alltaf að sjúga uppí nefið, og þurrka sér á erminni, og snýta sér útí loftið.  Ég horfði mikið á þetta í dag sé ég að honum hefur ábyggilega verið mjög kalt, það var jú kalt í fiskbúðinni, hann á stórum stígvélum, með óskaplega stóra húfu.  En alltaf keyptum við þarna. Að vísu var önnur fiskbúð handan við hornið, þ.e. á Barónsstígnum, þar var mun snyrtilegra, t.d. ekki gengið niður tröppur, og ekki fiskur í tröppunum. Hann þótti fínni fisksali, en ennfremur var hann eitthvað dýrari.   Það voru leiðinlegir dagar þegar ekki gaf á sjó, þá var ekki ýsa í matinn, þá var þessi leiðinlega frosna heilýsa eða skatan, sem í dag þykir mjög fín á aðventunni.   Í þá daga var skata langt frá því að vera fínn matur....Breyttir tímar....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband