31.3.2008 | 22:53
HEILSUVERNDARSTÖÐIN.
Það sem ég var ánægð þegar ljóst var að það hús skyldi áfram nýtast sem heilbrigðisstofnun. Gríðarlega margir voru vægast sagt miður sín, eftir söluna á því húsi, og meðan óljóst var hvert yrði hlutverk þess húss, sem mikið var nú gagnrýnt þegar verið var að byggja það. Einar, ég man ekkert í bíli hvers son hann var, en Einar dipl.ing., teiknaði það ásamt fleiri góðum byggingum, sem ég verð við tækifæri að rifja upp, svo ég fari ekki með rangt mál. Húsið var þrauthugsað frá hans hendi, og aldrei hefi ég komið í fallegra anddyri stofnunar þessa tíma, ekkert flóknara en það, en Einar lagði skýrar reglur um liti á veggjum og gólfum . Og allt útlit. Þegar berklavarnadeildinni var breytt þe húsnæði þeirrar deildar að mestu lagður undir heilsugæslustöð Miðbæjar, hvarf menningararfur, sem ekki verður aftur tekinn, því miður, það var mjög erfitt að horfa upp á þau verðmæti brotin niður. Þarna var saga berklavarna á Íslandi, sem er einstök, og var höfð til viðmiðunar erlendis.
Innan veggja þessa húss var gífurleg jákvæðni meðal starfssfólks og framsýni til heilsugæslu. Unnið var af miklum faglegum metnaði, og valinn maður í hverju rúmi. Þegar ég lít aftur til sjöunda áratugarins, þegar hvert einasta horn hússins var nýtt, til hins ýtrasta, verður mér svo hlýtt um hinar svokölluðu hjartarætur, hvað sem það nú annars er.
Sagan endurtekur sig, húsið hefur fengið sama hlutverk og það hafði í fyrstu, nema í dag heitir húsið Heilsuverndarstöðin.is, og er stofnunin einkavædd, ég ráðlegg öllum sem detta inn á þessa síðu að skoða hana, þetta var góð lausn og virðulegt hlutverk til handa þessum unga öldungi, Heilsuverndarstöðinni.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)