7.11.2007 | 16:32
GRUNNÞARFIR OG LÆRDÓMSATRIÐI..
Sólveig Anna er nú að temja sér grundvallaratriði 3ja ára barns og er í mörgu að snúast. Það þarf að huga að öllu, t.d. eins og að fá límmiða þegar eitthvað stórvirki tekst. Það þarf að gæta þess að missa heldur ekki völdin á heimilinu. Þarf að gæta þess að amma sé með í þessu ef hún er viðstödd, amma gæti nefnilega farið að gera eitthvað annað. Gæta þarf þess að nóg sé til af límmiðum.
Læra þarf alltaf eitthvað af nýjum orðum daglega, og í gær voru þrjú orð, bara talsvert erfið finnst mér og var ég þónokkra stund að ná þessu. Hún á það til að leika daginn þegar heim kemur og fara í gegnum hlutina í leik. Og núna var apinn hennar bæði handleggja og lappalangur orðinn Fálmari, ég skildi ekkert í þessu, apinn var að fálma bangsann, og þar sem framburður er ekki alltaf eins hélt ég að tungan væri eitthvað að flækjast fyrir henni, en apinn fálmaði bangsann, og "sestu nú á yfiðboðið og veðstu þoldið þmarrrt", hvað segirðu? setjast á hvað, yfiðboðið hélt hún áfram.
Hvað er yfiðboð??? Ég var nátturulega með minn huga í yfir og undirboðum bankanna og Orkuveitunnar sem fyrr og var lengi að kveikja. Yfiðboð er þetta, sagði ´Sólveig og benti á gólfið, sem betur fer tókst mér að skilja og sæmilegum tíma, en Fálmari er samkv. henni einhver sem er að krækja sig utan um hitt og þetta, og yfirborð er bara yfirborð, og svo er náttúrulega smart bara smart, en hún kunni nú það fyrir.
Það kom að WC ferð hennar, nú eru verðlaunaafhendingar, og af því við erum vinkonur förum við saman þegar ég er heima, og mér er lofaður límmiði, fyrst hún, og svo ég. Eftir þessa ferð varð henni að orði þegar ég var búin að gera skyldu mína við hana.
"Þú ert nú meiri kellingin, amma mín!!!!"
Ég er á því í dag, að það sé mjög gott fyrir barnabörnin, að eiga ömmur sem eru ekkert sérstaklega skýrar, eða gáfulegar. Þær eiga til dæmis bara að reyna að vera smart, og ekki vera að fálma útí loftið, og sitja á yfirborðinu þegar barnabarninu hentar. Og alls ekki að vera að heimta þennan límmiða sem eitthvað var verið að tala um, það er bara vesen.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)