VIÐSKIPTAHUGMYND HÚSBÓNDANS......

    Var ekki af lakara taginu, eiginlega til að grípa strax, allavega fór ég á flug, og ímyndunaraflið einnig.  Hann vill sækja um barleyfi, eða bjórleyfi. Ég er svosem engu nær með hverskonar leyfi það eru, en það mátti sjá spaugilegu hliðarnar á þessu bakgarðsmáli.  En uppástunga hans er, að selja bjórinn þeim sem hann eiga, svona nokkurskonar skiptiverslun, en auðvitað viljum við lágmarkslaun öldunga það er kr. 500 á tímann. En spurningin er hvort sækja þarf um leyfi, þegar sá sem ekki hefur leyfi til að skilja eftir, er leyfislaus, og svo framvegis.

   Ég sá ævagamla ósk rætast, að ég gæti loksins opnað kaffihús, það yrði auðvitað að vera útikaffihús, bæði þar sem þetta er bakdyramegin, og einnig fyrir viðskiptavinina, til að fá yl í kroppinn, áður en þeir færu út á gaddinn. Sá einnig að stofnkostnaður yrði töluverður, bæði þyrfti ég að kaupa gashitara, og bomsur.  Sæti fengi ég í Góða Hirðinum, og ég var tilbúin með nafnið, en ég gef það ekki upp strax, þetta er jú viðskiptahugmynd, sem maður auðvitað heldur leyndri, þar til síðar.

   Ég sá einnig að ég gæti notað kjallaragluggann, og verið sjálf fyrir innan, og afgreitt útum gluggann, þeas ef ekki væru til nægar bomsur.  Ég gæti einnig afgreitt útum gluggann þó hann mundi brotna, eins og kaupmaðurinn nálægt mér, sem afgreiddi út um brotna gluggann sinn, þegar gaskútarnir srpungu í ISAGA og rúður einnig í hverfinu, og búðinni hans.

   Ég sá einnig að ekkert gerði til þó gluggarnir væru smáopnir, það væri hvort eð er búið að stela því sem eitthvað var varið í, og fjarlægja sumt.

   Ég eygði ennfremur salernisaðstöðu, en hef ekki ákveðið neitt ennþá.

   Þetta er semsagt í nefnd..........................................


HEIMILISLAUSIR.....

   það er örugglega ekkert grín að vera heimilislaus á Íslandi, allt önnur aðstaða en til dæmis fyrir suðurlöndin, þar sem hægt er að sofa úti ársins hring á pappaspjöldum, undir svölum og pöllum, ég hef oft séð það.   Það er ekkert grín að vera hér í 5 stiga hita og neðar, og allri þessari vætu.

   Þegar ég fór að rifja upp heimilislausu einstaklinganna, sem við köllum þá í dag, það voru þeir nefndir öðru nafni í minni tíð, sem er óralangt síðan. Við kölluðum þá róna, og vorum alin upp við það og ég man ekki eftir að einhver niðurlæging hafi verið í því nafni.   Rónarnir í austurbænum, voru oft að sniglast í kringum sundhöllina, ríkið var á Snorrabrautinni, svo þetta var þeirra svæði.  Annað ríki var svo niðri á Lindargötu svo þar var hópurinn líka, þegar þeir áttu peninga, útborgun þeirra frá TR var um miðjan mánuðinn, sem er á sama stað og hún er. Þar var mikill hópur, og síðar opnaði maður þar bar sem varð samastaður þessara einstaklinga. Ég held endilega að það hafi verið góð lausn að hafa þann bar, þau höfðu þá allavega þann stað, þó svo að sárt hafi verið að sjá að peningarnir frá TR skiptu um eigendur á mjög skömmum tíma.

   Þegar alger skortur varð á víni hjá þeim, þá drukku þeir Aqua Portugal, sem fékkst í nýlenduvöruversluninni, svo það er ekkert nýtt að finna umbúðir hér og þar.

   Í dag, ruglast þessi einstaklingar á húsum þarna í hverfinu, eru oft ekkert vissir hvert þeir eiga að fara, tvisvar hafa þeir komist inn til okkar, og í eitt skipti gisti einni í kjallaranum, og vafði um sig mjög fallegu rúmteppi sem átti eftir að þvo, en svo vildi til að brunablettur varð eftir í teppinu, sem er aukaatriði, við vorum bara mjög fegin að ekki kviknaði í, við erum soldið eldhrædd í þessari fjölskyldu.  En nú erum við sem sagt búin að slá grasið,  búin að setja slagbranda á hurðir, og búiin að klippa háa randagrasið, sem var eftirlætisfelustaður áfengis, en við erum hrædd við önnur efni.

   Önnur efni, voru ekkert í gangi hér áður fyrr, þetta voru bara spakir rónar, rónar í dag eru ekki eins spakir sér í lagi ekki þeir sem eru í harðari efnum. Ég sjálf er skíthrædd við að finna þarna eitthvað annað. Það eru krakkar að leik þarna í sundinu, sem ég vona að verði áfram. Ég vona að foreldrar séu ekki farnir að halda börnum sínum inni af ótta við einhvern ófögnuð í görðunum sínum, en við erum allavega búiin að jafna allt niður við jörðu, svo við erum fljótari að finna, við förum líka að sjá hvenær helst mánaðar þetta er, og verðum ennfremur virkilega vör við að ekki einn einasti lögregluþjónn hefur sést ganga upp sundið...

   Það er eiginlega skrítin tilviljun, hvað þessi þjóðfélagshópur er alltaf nálægt mér, en ég hef óttalegt langlundargeð, eiginlega of mikið........................................


HEIMILI.. Vistheimili og heimili fyrir heimilislausa..............

   Flestum þykir afar vænt um heimilið sitt og hreiður, og upplausn þess þegar að því kemur stórmál hjá flestum. Hjá henni vinkonu minni sem ég nefndi í gær, kom þessi óskaplegi söknuður til fortíðarinnar sem hún var að sleppa, en ekki fyrr en á  elliheimilið kom. Söknuður til eiginmanns síns, sem hafði gefið henni heimilið að hennar mati, og minningar þyrluðust upp við hvern hlut. Borðið hennar skápana, og eiginlega alls.

   Þetta leystist ágætlega, og hún varð smám saman sátt við þetta, átti 5 börn, sem tóku að sér hlutina hennar og ætluðu sér að hlúa áfram að þessum minningum.

   En ekki eru allir sem eiga heimili, og eiga stundum fyrst almennilegt heimili, þegar á öldrunarstofnun er komið. Karlmennirnir á Njálsgötu heimilinu, líta ekki á Njálsgötuna sem heimilið sitt, ekki held ég það. Það vill nú svo til að ég á þar smáíbúð, og snýr grasbletturinn minn, ef grasblett skyldi kalla, gegnt Njálsgötuheimilinu.  Þessi grasblettur hefur svosem ekki verið til gagns, við höfum ekki hugsað mikið um hann, nema vera skyldi núna, eftir að þetta heimili var opnað, þessi smálóð, er nokkurskonar geymsla fyrir áfengi hinna heimilislausu manna, þar má finna bjór og fleira þannig. Tvær kippur voru í fyrradag, enda mánaðarmót.  Smáflöskur hafa fundist með hreinum spíra, við höfum brugðið á það ráð að hella úr þessum smáflöskum, en hirðum bjórinn ef hann er með innsigli, en einhvernveginn hefur maður varla lyst á að drekka hann.

   Þessar birgðir mannanna á Njálsgötunni eru nátturulega til þess eins að getað svalað sér á þegar út er komið á morgnana, en allir vita að menn í neyslu, eiga varasjóð einhversstaðar vel falinn, eitthvað smávegis til að dreypa á, greinilegt er að margir sem þarna dvelja ætla sér ekkert að hætta, við vorum einnig með einhverja stóla sem átti eftir að henda, og fannst mönnunum á Njálsgötunni og félögum þeirra huggulegt að geta setið þar og sumblað soldið, áður en inn var farið á Njálsgötuheimilið, eða þá smókað sig og staupað sig á birgðunum sem geymdar höfðu verið ágætlega í grasinu óslegnu.  En stólarnir urðu að hverfa, og var töluvert ónæði af þessu, því mikið var reykt og ilmurinn upp um glugga íbúa hússins.

   Þarna er ég svo heppinn að leigjendur mínir eru farnir að hafa vakandi auga með þessu, en það segir sig sjálft að þeir eru ekki í vinnu hjá Borginni, þannig að þetta er ekki þeirra verk. Okkur var lofað aukinni löggæslu þarna, en ekki hefur sést hræða frá þeim, síðan þetta var opnað, loforð ná ekki langt nú til dags.

   Það væri afar viðeigandi ef starfsmenn hússins, Njálsgata 74, slæddu næstu garða við það hús og á móti. Það er ekki nógu gott að þurfa binda sig við þessi ósköp.

   En Velferðarráð fær mínar bestu kveðjur, þar er talsverð vinna að baki, en enn meiri framundan.


JA HVERNIG Á NÚ AFTUR AÐ FARA AÐ ÞVÍ.'?

   Ég hef auðvitað enga hugmynd um það, og ætlaði mér ekki að reyna það, var eiginlega bara að láta hugann reika aftur í tímann, þegar ég var stödd á þeim tímapunkti, sem aðstandandi aldraðra, og sem starfsmaður í þeim geira um skeið.

   Ég stóð mig að því oftar en einu sinni, hvað það gat verið erfitt að flytja inn á öldrunarstofnun, ´jafnvel þó sú ráðstöfun einstaklingsins hafi verið að hans eigin vilja, strax frá byrjun, jafnvel fyrr en fjölskylda einstaklingsins átti von á.  Ég minnist þess að hafa rætt við konu sem einna erfiðast átti með að "Leysa upp heimilið sitt", ég hefi alltaf átt erfitt með að heyra þessa skoðun, og staldraði við þegar ég heyrði hana, ég á nefnilega erfitt með að heyra hana, og þá helst vegna þess, ég hef þá verið að velta fyrir mér, "Hvað er heimili?", og síðan að þurfa að "Leysa upp heimili".  Því er ég að hallast á þá skoðun, að nauðsynlegt sé að gera það upp í tíma, að svona upplausn á heimili, eru yfirleitt hlutir, sem við erum að ríghalda í.  Sjálf rígheld ég í einhverja hluti, og finn svo sannarlega að ég verð að taka mig taki.  Það tekur tíma, sérstaklega þegar maður hefur verið á fáum stöðum í lífinu, sem ég fer að halda að sé manni ekki hollt. Hvernig er þá að fara frá þessu fyrir fullt og allt, ef það er svona erfitt að losa sig??

   EIN YNDISLEG KONA, sem ég þekki, og er óhemju skemmtileg, hafði og hefur óskaplega gaman að fallegum hlutum, mjög fallegum hlutum.., og oftar en ekki kvartaði hún undan hvað þetta væri mikið verk að hugsa um þetta alltsaman, hún "væri blátt áfram að kafna í kristal", en góð lausn kom frá börnum hennar með hennar samþykki auðvitað.  Hún var send í útilegu, í fylgd systur, og mátti ekki koma heim fyrr en eftir tvo daga.  Meðan tók fjölskylda hennar allt í gegn, gott ef þau máluðu ekki líka, og grisjuðu silfrið og kristalinn og allt sem henni hafði ákotnast í gegnum árin.

   OG VEISTU ÞAÐ SOLLA, ÉG TÓK EKKI EINU SINNI EFTIR ÞVÍ.............................................

  


GLIMRANDI DAGUR.....

   Við vinkonurnar fórum á laugarvegs- og skólavörðustígsrölt í dag, í blíðviðrinu sem öllum er kunnugt. Minn uppáhaldstími minn er haustið, og hefur alltaf verið. Það versta með mína vinkonu að hún vildi ganga sólarmegin götunnar, en það eru fleiri, eiginlega mjög margir. Og eiginlega er þá of heitt fyrir mig. Við drukkum kaffi og með því í miðbænum, og gerum við þetta alltof sjaldan. En það var þessi góða jarðarför sem rak okkur af stað.

   Við fórum í sitthvora áttina á heimleið þar sem ég ætlaði í Bónus á Laugavegi og hún á fund að hitta aðrar konur. Með Bónuspokann settist ég á bekkinn, beið bíls. Vorum við þar þrjú, tveir menn og ég. Annar var öldungur, en hinn fastagestur á bekknum.  Það má segja að gætt hafi ,útlitslega séð, gríðarlegur mismunur. En þó einhvert samræmi, eftir á að hyggja, við fórum nefnilega að tala saman um hluti sem brann á okkar vörum, og við vorum bara heilmikið sammála. Öldungurinn var elztur, reffilegur karl, ég svona semi-öldungur, síðan sá yngsti sem var á óræðum aldri, en hann var greinilega fastagestur þarna. Fastagesturinn var með vökva með sér í kókflösku, sem ilmaði, síðan var hann með trefil, til vonar og vara, öldungurinn var uppáklæddur eins og sagt er í dag, og ég líka, stungum við töluvert í stúf við hvort annað. Ég fann að þetta var góður selskapur sem ég var í og við ræddum eins og við hefðum sést í gær, sá yngsti var eiginlega skýrastur af okkur þrem, ég veit ekki hvert okkar skemmti sér best, maðurinn með kókflöskuna, konan með bónuspokann, eða öldungurinn, bíllinn var lengi á leiðinni, og var ég eiginlega fegin.   En mikið hefði verið gaman ef ég hefði verið með myndavél, þó ekki hefði verið hægt að fanga hið andlega augnablik, hefði þetta orðið góð mynd...................


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband